Hjúkrunarheimilið

Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi, er fyrsta byggingin á Íslandi sem er sérhönnuð sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Frá 1. janúar 2014 er hjúkrunarheimilið rekið af Vigdísarholti ehf. en það er félag í eigu velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Auk Sunnuhlíðar rekur Vigdísarholt hjúkrunarheimilið Seltjörn að Safnatröð 1, Seltjarnarnesi.

Forstjóri Vigdísarholts ehf. ( rekstraraðila hjúkrunarheimilisins) Kristján Sigurðsson

Framkvæmdastjóri hjúkrunar er Svanlaug Guðnadóttir

Læknir hjúkrunarheimilisins eru læknar Heilsuverndar

Forstöðumaður Dagdvalar er Margrét Bergþóra Símonardóttir

Í hjúkrunarheimilinu eru 70 rými, sem samanstendur af 3 deildum. Það er Lundur, Hvammur og Álfhóll. Á Lundi eru 20 rými, þar af 4 einbýli og 16 tvíbýli. Hvammur er tvískipt deild, og kallast annar helmingur Þinghóll. Á Hvammi eru 12 rými, þar af 4 einbýli og 8 tvíbýli og á Þinghól eru 11 rými, þar af 5 einbýli og 6 tvíbýli. Á Álfhól eru 23 rými, öll einbýli og auk þess eru 4 rými fyrir endurhæfingu aldraða.  Hjúkrunarheimilið rekur einnig dagdvöl fyrir 20 einstaklinga. Þá er einnig í hjúkrunarheimilinu fullkomið eldhús, mjög góð aðstaða fyrir sjúkraþjálfun, félagsstarf og skrifstofa. Starfsmenn Sunnuhlíðar eru um það bil 130 í 80 stöðugildum og hafa þeir víðtæka reynslu og faglega færni sem nýtist vel við umönnun heimilismanna.

Á vegum Rauðakrossdeildar Kópavogs eru starfandi sjúkravinir, en þeir hafa í fjölda ára heimsótt íbúa heimilisins og séð um upplestur, söng og samveru. Koma þau einu sinni til tvisvar á dag flesta daga vikunnar. Þá taka sjúkravinir einnig þátt í helgistund og heimsóknir hunda á vegum sjúkravina eru vinsælar. Inn af setustofu er lítil kapella og koma sóknarprestar í Kópavogi vikulega, alltaf á fimmtudögum, og sjá um helgistund með íbúum. Markmið Sunnuhlíðar er að vera ávallt í fremstu röð hjúkrunarheimila í landinu hvað varðar þjónustu við íbúa, aðbúnað þeirra og starfsfólks. Til að ná þessum markmiðum þarf heimilið að vera aðlaðandi starfsvettvangur sem hefur á að skipa hæfu, metnaðarfullu og góðu starfsfólki og þar hefur vel tekist til. Öll hönnun og val á hús- og tækjabúnaði miðast við að starfsemi, húsnæði og aðbúnaður sé með því besta sem völ er á hverju sinni. Íbúar hjúkrunarheimilisins og aðstandendur þeirra eru best til vitnis um hvort þessi markmið nást.

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð er aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu SFV sem stofnuð voru árið 2002. Á heimasíðu þess samtok.is má sjá handbók sem er hugsuð til að auðvelda nýjum íbúum og ættingjum þeirra að átta sig á hvað sé innifalið í dvalargjaldi sem greitt er fyrir dvölina frá Sjúkratryggingum Íslands með lögbundinni greiðsluþátttöku íbúa.